Brynjar Hólm níundi í kjöri á íþróttamanni ársins

Í menningarhúsinu Hofi síðastliðinn miðvikudag var lýst kjöri íþróttamanns Akureyrar 2017. Þetta var í 39. skipti sem íþróttamaður Akureyrar er heiðraður. Alls hlutu 11 íþróttakonur og 15 íþróttakarlar úr röðum aðildarfélaga ÍBA atkvæði til kjörsins. Á athöfninni veitti frístundaráð viðurkenningar fyrir Íslandsmeistatatitla og sérstakar heiðursviðurkenningar auk þess sem Afrekssjóður Akureyrarbæjar veitti aðildarfélögum styrki fyrir landsliðsmenn.

Íþróttakona Akureyrar 2017 var kjörin Stephany Mayor knattspyrnukona úr Þór/KA. Síðasta sumar var Stephany algjör lykilmaður í liði Þórs/KA sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum í haust. Hún nálgast leikinn af mikilli fagmennsku, er útsjónarsamur leikmaður og býr yfir miklum leikskilningi, mikilli tækni og er í alla staði frábær íþróttamaður, innan vallar sem utan. Stephany var í byrjunarliði Þórs/KA í öllum leikjum liðsins í Pepsi-deildinni og Borgunarbikarnum en auk þess spilaði hún fjóra leiki í Lengjubikar og skoraði þar tvö mörk. Stephany var valin best leikmanna í Pepsideildinni í lok sumars ásamt því að vera markahæsti leikamaður deildarinnar.

Í 2. sæti varð Bryndís Rún Hansen sundkona úr Óðni og í 3. sæti júdókonan Anna Soffía Víkingsdóttir úr Draupni/KA.

Íþróttakarl Akureyrar 2017 var kjörinn Tryggvi Snær Hlinason körfuknattleiksmaður úr Þór. Tryggvi var lykilmaður í úrvalsdeildarliði Þórs sem endaði í 8. sæti úrvalsdeildar vorið 2017 og komst þar með í úrslitakeppni þar sem félagið féll út á móti KR-ingum sem síðan hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum. Á árinu tók Tryggvi Snær einnig þátt í landsliðsverkefnum bæði með A-landsliði og U20 ára landsliði. Árangur hans með U20 landsliðinu var sérlega glæsilegur. Liðið keppti í A-deild Evrópumótsins ásamt öllum sterkustu landsliðum álfunnar og endaði í 8. sæti. Tryggvi Snær var valinn í fimm manna úrvalslið keppninnar og var jafnframt framlagshæstur allra leikmanna á mótinu; hann skoraði að meðaltali 16,1 stig, tók 11,6 fráköst og var með 3,1 varið skot í leik. Í haust gekk Tryggvi Snær svo til liðs við Spánarmeistara Valencia og hóf þar með atvinnumannsferil sinn. Elín Heiða Hlinadóttir, systir Tryggva, tók við verðlaununum fyrir hans hönd.

Í 2. sæti varð Viktor Samúelsson kraflyftingamaður úr KFA og í 3. sæti varð Alexander Hinriksson júdómaður úr Draupni/KA. Neðst í fréttinni má sjá heildarlistann.

Heiðursviðurkenningar Frístundaráðs hlutu þau Hrefna Hjálmarsdóttir fyrir ötult starf í þágu skátahreyfingarinnar og Ágúst Herbert Guðmundsson fyrir mikið og óeigingjarn starf í körfuboltaíþróttinni.

Frístundaráð veitti viðurkenningar til 16 aðildarfélaga vegna 243 Íslandsmeistara á síðasta ári og Afrekssjóður veitti 13 aðildarfélögum samtals rúmar 2 milljónir í styrki vegna 114 landsliðsmanna árið 2017.

Brynjar Hólm Grétarsson var fulltrúi Akureyrar Handboltafélags í kjörinu og hlaut hann 51 stig og varð því í níunda sæti yfir íþróttamann ársins. Smelltu hér til að lesa nánar um Brynjar Hólm, handknattleiksmann AHF 2017.

 


binniBrynjar Hólm Grétarsson, handknattleiksmaður AHF 2017

 

Íþróttakona ársins 2017:

 1. Sandra Stephany Mayor 223
 2. Bryndís Rún Hansen 220
 3. Anna Soffía Víkingsdóttir 160
 4. Sóley Margrét Jónsdóttir 158
 5. Anna Rakel Pétursdóttir 133
 6. Eva María Karvelsdóttir 119
 7. Hulda B. Waage 90
 8. Andrea Ýr Ásmundsdóttir 62
 9. Martha Hermannsdóttir 58
 10. Björk Óðinsdóttir 56
 11. Helena Jónsdóttir 6

Íþróttamaður ársins 2017:

 1. Tryggvi Snær Hlinason 288
 2. Viktor Samúelsson 247
 3. Alexander Heiðarsson 156
 4. Þorbergur Ingi Jónsson 119
 5. Orri Blöndal 113
 6. Ævarr Freyr Birgisson 87
 7. Snævar Atli Halldórsson 68
 8. Brynjar Leó Kristinsson 52
 9. Brynjar Hólm Grétarsson 51
 10. Viðar Bragason 48
 11. Björn Heiðar Rúnarsson 40
 12. Jón Gunnar Traustason 16
 13. Grétar Mar Axelsson 8
 14. Einar Sigurðsson 6
 15. Þór Þormar Pálsson 6

Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

 • Orkan og Orkulykill

  Orkan og Orkulykill

  Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

  Lesa meira