Sáttur með árangurinn til þessa

Nú styttist óðum í að Grill 66-deildin hefjist að nýju eftir langt og gott jólafrí en Akureyri Handboltafélag hefur leik á nýju ári næstkomandi föstudagskvöld þegar ÍBV U kemur í heimsókn í Íþróttahöllina.

Akureyri situr í 2.sæti deildarinnar að tíu umferðum loknum, stigi á eftir toppliði KA. Heimasíðan tók Sverre Jakobsson, þjálfara Akureyrar, tali í tilefni af því að boltinn er að byrja að rúlla að nýju. Hann kveðst ánægður með gengi liðsins á fyrri hluta tímabilsins.

,,Í heildina er ég mjög sáttur með árangur drengjanna fram að þessu. Þeir hafa lagt mikið á sig, vilja bæta sig og eru tilbúnir að leggja þá vinnu á sig sem þarf. Á handboltavellinum erum við enn taplausir og erfitt að vera fúll út í þann árangur. Mér finnst við sem lið hafa verið hægt og rólega að aðlagast nýjum hlutverkum og taka á sig þá ábyrgð sem þarf."

,,Varnarleikurinn hefur heilt yfir verið flottur með markvörslunni en við eigum enn finnst mér inni sóknarlega og erum að vinna hörðum höndum að ná því á betra stig," segir Sverre sem segir jafnframt að markmið liðsins séu skýr.

,,Ég er bjartsýnn á að við náum að bæta okkur og verða betri, hvort það sé nóg til að komast upp verður að koma í ljós. Við ætlum að berjast fyrir því sæti það er á hreinu og úr því sem komið er væri annað í raun vitleysa."

,,Dýrmætur tími fyrir unga menn og ég vil ekki taka neitt af þeim tíma ef ég þarf þess ekki."

sverre

Síðasti leikur fyrir jólafrí var bikarleikur gegn Gróttu sem tapaðist með minnsta mun þann 13.desember síðastliðinn. Liðið hefur nýtt fríið vel og er staðan á leikmannahópnum nokkuð góð að sögn Sverre.

,,Hún er ágæt, Igor (Kopyshynskyi) tognaði illa fyrir jól og er að vinna sig úr þeim meiðslum. Patti (Patrekur Stefánsson) átti líka erfitt með olnboga undir lokin á fyrri umferðinni en er að koma til. Svo eru nokkrir með smápústra en ekkert alvarlegt," segir Sverre

Sverre sjálfur kom aðeins við sögu fyrir áramót og hélt áfram að bæta eigið met sem elsti leikmaður í sögu félagsins. Reiknar hann með því að stíga inn á leikvöllinn á síðari hluta tímabilsins?

,,Ástæðan fyrir því að ég var með var að koma smá reynslu inni liðið ef þess þyrfti. Við erum með mjög ungt lið og í raun engan “gamlan” mann í liðinu til að taka ákveðna pressu eða ábyrgð í vissum aðstæðum. Mínir menn hafa tekið á því með myndarskap og því hefur mín aðkoma á vellinum verið takmörkuð. Þetta er dýrmætur tími fyrir unga menn og ég vil ekki taka neitt af þeim tíma ef ég þarf þess ekki," segir Sverre að lokum.

Smelltu hér til að lesa fyrri hluta viðtalsins við Sverre.


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira