„Spenntur að byrja að vinna fyrir klúbbinn”

Geir Sveinsson er nýr þjálfari Akureyrar Handboltafélags en hann var formlega kynntur til sögunnar í gær. Heimasíðan nýtti tækifærið og bauð Geir velkominn til félagsins með smá spjalli.

Geir mætti til Akureyrar í ársbyrjun og stýrði sinni fyrstu æfingu 2.janúar síðastliðinn. Hann er því aðeins búinn að kynnast okkar mönnum.

„Mér líst vel á hópinn. Ég er búinn að vera hérna í fjóra daga og taka fjórar æfingar. Þetta eru flottir strákar, duglegir og vinnusamir og þetta er krefjandi en jafnframt spennandi verkefni fyrir okkur öll. Við viljum byggja enn frekar ofan á þá mikilvægu og góðu vinnu sem hér hefur þegar verið unnin og bæta enn frekar við þau 8 dýrmætu stig sem liðið hefur þegar náð,“ segir Geir.

Geir hefur mikla reynslu úr þjálfun en hann hefur þjálfað Val og Gróttu hér á landi, þýska úrvalsdeildarliðið Magdeburg og austurríska úrvalsdeildarliðið Bregenz auk þess að hafa starfað sem landsliðsþjálfari, fyrst hjá U-21 árs landsliði Íslands og síðar sem A-landsliðsþjálfari en það var einmitt síðasta starf Geirs. Hann stýrði strákunum okkar á HM 2017 og EM 2018 en lét af störfum eftir EM 2018 fyrir tæpu ári síðan.

Hvers vegna ákveður Geir taka þetta skref á þjálfaraferlinum nú?

„Ég var ekki að þjálfa og mér fannst þetta áhugaverð áskorun. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér í nokkra daga ákvað ég að taka henni. Það voru fyrst og fremst fjölskylduástæður sem ég spáði í fram og til baka. Við erum búsett í Þýskalandi og það þurfti að ákveða hvort við ætluðum öll að fara eða hvað. Við ákváðum að fjölskyldan yrði áfram í Þýskalandi þennan vetur vegna skólagöngu barnanna. Ég kem því einn til Akureyrar og tek þetta að mér í nokkra mánuði með fjölskylduna búsetta erlendis. Svo sjáum við hvernig þetta þróast og hvernig næstu skref verða,“ segir Geir.

„Handbolti er frekar einfaldur, hann gengur út á að vinna leiki"

Geir hefur ekki þjálfað í efstu deild á Íslandi í langan tíma en kveðst þó hafa fylgst vel með undanfarin ár.

„Ég fylgdist vel með deildinni sem landsliðsþjálfari, starfs míns vegna og er því vel kunnugur henni. Það eru ekki það miklar breytingar á leikmönnum í deildinni frá því ég var að þjálfa landsliðið. Ég hef fylgst með í vetur og nú sest maður fyrir framan tölvuna og skoðar það efni sem maður getur náð sér í til að átta sig á deildinni. Þetta er mjög spennandi og skemmtileg deild. Það er mikið um að vera og mikill uppgangur.“
-Síðasta starf Geirs var landsliðsþjálfarastaðan-

Geir er mjög spenntur fyrir því að vinna fyrir Akureyri Handboltafélag en hann er þegar fluttur í bæinn og mun starfa í fullu starfi sem þjálfari AHF. Í því felst meðal annars að fylgjast vel með og taka þátt í öllu starfi félagsins, frá meistaraflokki og niður í yngri flokkana. 

„Mér líst ljómandi vel á þetta félag. Hér er mikill metnaður og vilji hjá stjórnarmönnum og leikmönnum. Ég get ekki betur séð en að menn vilji gera þetta eins faglega og mögulegt er; það er mjög gott að finna fyrir því. Ég reyni að koma inn með mína þekkingu inn í klúbbinn. Mér líst mjög vel á þetta. Drengirnir eru viljugir og stemningin er góð. Nú er það bara okkar að vinna úr því sem við höfum og gera það eins vel og við mögulega getum.“

„Ég er spenntur að fara að vinna fyrir klúbbinn. Þetta er áhugaverður klúbbur. Handbolti er frekar einfaldur, hann gengur út á að vinna leiki og það er það sem við viljum gera. Vonandi göngum við öll í sömu átt; stuðningsmenn, þjálfarar, leikmenn og stjórn við að gera þetta sem best,“ sagði Geir að lokum.

 


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira