Sverre: Liðið tók miklum framförum í leiknum

Sverre Jakobsson
Sverre Jakobsson

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, kveðst vera stoltur af frammistöðu liðsins þrátt fyrir eins marks tap gegn KA í 1.umferð Olís-deildar karla.

„Ég er mjög svekktur en hins vegar mjög stoltur af liðinu. Við komum virkilega til baka í síðari hálfleiknum og sýndum karakter. Ýmislegt sem við lögðum upp með gekk mjög vel eftir. Það er dæmd lína hérna þegar við getum komist yfir rúmlega mínútu fyrir leikslok. Í staðinn fá þeir boltann og við missum mann af velli. Það er stutt á milli í þessu,“ sagði Sverre í leikslok í gær.

Hann telur að Akureyri hafi átt skilið að fá eitthvað út úr leiknum en það er ekki alltaf spurt að sanngirni í íþróttum.

„Við gerðum okkur svolítið erfitt fyrir í fyrri hálfleik og þurftum að eyða mikilli orku í að elta. Það þurfti margt að ganga upp og það munaði alls ekki miklu.“

„Mér fannst við eiga skilið að fá stig út úr þessu miðað við hvernig leikurinn þróaðist en það er ekkert spurt að því í íþróttum. Það þarf að klára þetta,“ sagði Sverre.

Hann er sannfærður um að það verði ekki erfitt að rífa menn upp úr þessum vonbrigðum.

„Nei. Það verður ekki erfitt að rífa menn upp eftir þetta. Þetta var bara fyrsta skrefið og við byrjum á stórleik. Mér fannst liðið taka miklum framförum í þessum leik miðað við hvernig við höfum verið undanfarið. Við höfum verið á eftir öðrum liðum í undirbúningi þannig að ég er bara voðalega stoltur af strákunum og mér fannst seinni hálfleikurinn gefa góð fyrirheit fyrir framhaldið,“ segir Sverre.Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira