Sverre: Þetta er bara æðislegt

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var glaðbeittur í leikslok eftir sigurinn á FH í Höllinni í dag.

„Þetta er bara æðislegt. Mjög kærkomið og að mörgu leyti verðskuldað. Við erum búnir að vera að leggja mikla vinnu á okkur í mótlæti og það hlaut að koma að því að þetta myndi detta okkar megin,“ segir Sverre sem var ánægður með frammistöðu sinna manna.

„Góð frammistaða. Við vorum mjög einbeittir. Við erum að reyna að ná meira jafnvægi í okkar leik og bæta nokkrum þáttum við, það er bara innan hópsins. Þetta er staðfesting á því að það virki. Vonandi taka menn þetta til sín.“

Þó Akureyri hafi verið á botni deildarinnar í allan vetur hefur liðið verið í mörgum jöfnum leikjum sem hafa oft tapast með minnsta mun. Það var því kominn tími til að einn leikur myndi detta með Akureyringum að mati þjálfarans.

„Þetta gefur hópnum mjög mikið. Maður hefur trú á því með þessa jöfnu leiki að þetta jafnist út á endanum svo við eigum enn nokkra inni. Við erum með reynslulítið lið þannig að menn eru alltaf að læra.“

En var ekkert farið að fara um Sverre á lokamínútunni þegar FH-ingar herjuðu á heimamenn?

„Jú þar fór mjög mikið um mig. Ég trúði samt á að strákarnir myndu klára þetta. Þeir voru svo einbeittir,“ sagði Sverre.


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira