Upphitun: Akureyri - Grótta

Akureyri Handboltafélag fær Gróttu í heimsókn í 18.umferð Olís-deildar karla, sunnudaginn 17.mars. Leikurinn hefst klukkan 16:00 en húsið opnar 15:00 og verður hægt að fá hamborgara og drykk gegn vægju gjaldi í kaffiteríu Íþróttahallarinnar. 

FRÍTT ER Á LEIKINN Í BOÐI KJARNAFÆÐIS.

Grótta er í neðsta sæti deildarinnar með 8 stig eftir 17 leiki, líkt og okkar menn. Grótta hefur unnið 3 leiki (KA x2 og Fram), gert 2 jafntefli (Akureyri og ÍBV) en tapað 12 leikjum (Valur x2, FH x2, Haukar x2, Stjarnan, ÍR, Selfoss, Afturelding, ÍBV og Fram).

Magnús Öder Einarsson er markahæsti leikmaður Gróttu í vetur með 66 mörk í 16 leikjum en næstur á eftir honum í markaskorun er línumaðurinn Sveinn Jose Rivera með 60 mörk í 17 leikjum. 

Á milli stanganna stendur aðalstjarna liðsins sem er okkur af góðu kunnur, Hreiðar Levý Guðmundsson. Hann hefur leikið 64 leiki fyrir Akureyri í efstu deild, fyrst tímabilið 2006-2007 og svo á árunum 2014-2016. Að auki þjálfaði hann yngri flokka félagsins á þessum tíma.

Þjálfari Gróttu er Einar Jónsson en hann mun yfirgefa félagið næsta sumar þar sem hann er búinn að ráða sig til starfa hjá færeysku liði frá og með næstu leiktíð.

Vart þarf að fjölyrða um mikilvægi leiksins en aðeins eru fimm umferðir eftir af Olís-deildinni og ljóst að bæði lið þurfa á öllum stigum að halda í baráttunni um að tryggja sæti sitt í deildinni.

Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt í Höllina á sunnudag verður leikurinn í beinni útsendingu á Akureyri TV á Youtube.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira