Upphitun: Akureyri - Haukar

Sjáumst í Höllinni!
Sjáumst í Höllinni!

Akureyri Handboltafélag fær Hauka í heimsókn í 14.umferð Olís-deildarinnar, laugardaginn 2.febrúar og hefst leikurinn klukkan 16:00 en Höllin opnar fyrir áhorfendur klukkutíma fyrir leik þar sem hægt verður að fá sér glóðargrillaða hamborgara og drykk gegn vægu gjaldi.

Haukar eru eitt sigursælasta lið landsins á þessari öld og hafa á að skipa sterku liði í ár líkt og undanfarin ár en þeim var spáð deildarmeistaratitli af Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport til að mynda. Þeir sitja í 2.sæti deildarinnar með 19 stig eftir 13 leiki. Þeir hafa unnið 8 leiki (Akureyri, Fram, Gróttu, Stjörnuna, Selfoss, Aftureldingu, ÍBV og KA) gert 3 jafntefli (FH x2 og ÍR) og tapað 2 (KA og Val).

Í fyrri viðureign okkar manna gegn Haukum í vetur fóru Haukar með fimm marka sigur, 31-26, en leikið var að Ásvöllum í 3.umferð deildarinnar þann 22.september síðastliðinn. Adam Haukur Bamruk fór mikinn og skoraði 9 mörk fyrir Hafnfirðinga en Hafþór Már Vignisson var atkvæðamestur hjá Akureyri með sjö mörk og Leonid Mykhailiutenko sex.

Atli Már Báruson er markahæsti leikmaður Hauka í vetur en þessi útsjónarsami leikstjórnandi hefur skorað 67 mörk í þrettán leikjum. Næstur á eftir honum í markaskorun er línumaðurinn stóri og stæðilegi Heimir Óli Heimisson með 58 mörk.

Þjálfari Hauka er hinn reynslumikli Gunnar Magnússon, sem hefur einnig þjálfað ÍBV, HK og fleiri félög auk þess að vera í þjálfarateymi A-landsliðs karla. Honum til aðstoðar er Maksim Akbachev en hann er sonur Mickail Akbashev sem þjálfaði Þór Akureyri í efstu deild um tíma skömmu fyrir aldamót.

Um er að ræða fyrsta leik ársins 2019 í Olís-deild karla og er þetta jafnframt fyrsti leikur okkar manna undir stjórn Geirs Sveinssonar. Við hvetjum allt handboltaáhugafólk til að fjölmenna í Höllina og styðja okkar menn til sigurs.

Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt í Höllina er rétt að benda á að leikurinn verður í beinni útsendingu á Akureyri TV.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira