Upphitun: Akureyri - ÍBV U

Grill 66-deildin hefst að nýju þegar ÍBV U kemur í heimsókn í Íþróttahöllina á Akureyri á morgun, föstudag í 11.umferð deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 19:00 en húsið opnar fyrir áhorfendur klukkan 18:15 þar sem hægt verður að kaupa hamborgara og drykk á 1000 krónur.

Þetta er fyrsti leikur Akureyrar á nýju ári og getur liðið tyllt sér á topp deildarinnar um stundarsakir með sigri þar sem topplið KA leikur sólarhring síður.

ÍBV U er í 7.sæti deildarinnar með átta stig en geta stillt upp hörkuliði og unnu til að mynda sigur á KA í Vestmannaeyjum í síðustu umferð. Þá voru þeir einnig nálægt því að gera góða ferð til Akureyrar í fyrstu umferð deildarinnar þegar þeir töpuðu með minnsta mun í KA-heimilinu eftir að hafa leitt leikinn í 59 mínútur.

Markahæsti leikmaður ÍBV U í vetur er Bergvin Haraldsson með 41 mark í 10 leikjum en Bergvin er stór og stæðilegur línumaður. Daníel Örn Griffin er næstmarkahæstur með 36 mörk í 9 leikjum. Daníel bráðefnileg hægri skytta sem hefur komið töluvert við sögu með aðalliði ÍBV sem er í 2.sæti Olís-deildarinnar.

Fyrri leikur Akureyrar og ÍBV U lauk með öruggum níu marka sigri okkar manna, 26-35. Þá mættust liðin í Vestmannaeyjum í 2.umferð deildarinnar þann 22.september síðastliðinn. Brynjar Hólm Grétarsson fór mikinn og skoraði ellefu mörk í leiknum. Markahæstur í liði Eyjamanna var Logi Snædal Jónsson með sex mörk.

Í viðtali við heimasíðuna nú á dögunum sagði Sverre stöðuna á leikmannahópnum nokkuð góða: ,,Hún er ágæt, Igor (Kopyshynskyi) tognaði illa fyrir jól og er að vinna sig úr þeim meiðslum. Patti (Patrekur Stefánsson) átti líka erfitt með olnboga undir lokin á fyrri umferðinni en er að koma til. Svo eru nokkrir með smápústra en ekkert alvarlegt."

Ljóst er að um er að ræða gríðarlega mikilvægan leik og því ærin ástæða til að hvetja Akureyringa og nærsveitunga til að fjölmenna í Höllina og styðja við bakið á strákunum okkar.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira