Upphitun: Akureyri - ÍR

Akureyri Handboltafélag fær ÍR í heimsókn í 22.umferð Olís-deildarinnar, laugardaginn 6.apríl klukkan 19:00 í Íþróttahöllinni á Akureyri og ljóst að okkar menn þurfa á sigri að halda til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í efstu deild en þetta er lokaumferðin í deildinni.

ÍR situr í 8.sæti Olís-deildarinnar og er búið að tryggja sig inn í úrslitakeppnina. ÍR hefur unnið 6 leiki (ÍBV, Fram, Gróttu x2, Aftureldingu og KA), gert 5 jafntefli (KA, Haukar, Akureyri, ÍBV og Stjarnan) en tapað 10 leikjum (Stjarnan, FH x2, Valur x2, Afturelding og Selfoss x2, Haukar og Fram).

Markahæstu leikmenn ÍR í vetur eru Björgvin Þór Hólmgeirsson og Sturla Ásgeirsson en hvor um sig hefur gert 98 mörk. Aðrir lykilmenn ÍR eru okkur Akureyringum af góðu kunnir. 

Í leikmannahópi ÍR eru fjórir fyrrum leikmenn Akureyrar en það eru þeir Bergvin Þór Gíslason (159 leikir fyrir AHF), Kristján Orri Jóhannsson (116 leikir fyrir AHF) , Halldór Logi Árnason (144 leikir fyrir AHF) og Þrándur Gíslason (55 leikir fyrir AHF). Halldór Logi hefur þó aðeins leikið tvo leiki í vetur en hinir þrír eru allir í stórum hlutverkum í liði ÍR.

Bergvin Þór er uppalinn í Þorpinu og er þriðji leikjahæsti leikmaður í sögu AHF. Kristján Orri er þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu AHF með 542 mörk. Þá hefur þjálfari ÍR liðsins einnig markað djúp spor í sögu okkar félags því Bjarni Fritzson þjálfar ÍR-inga. Hann er markahæsti leikmaður AHF með 709 mörk í þeim 100 leikjum sem hann lék fyrir okkur árin 2010-2014 auk þess sem hann þjálfaði einnig liðið um tíma.

Vart þarf að fjölyrða um mikilvægi leiksins fyrir okkar lið þar sem ljóst er að við þurfum tvö stig út úr leiknum og um leið að treysta á að Fram næli sér ekki í stig gegn ÍBV en þau eigast við í Safamýri á sama tíma.

Frítt verður á leikinn í boði styrktaraðila Akureyrar Handboltafélags og hvetjum við ykkur til að mæta snemma í Höllina en hún opnar klukkutíma fyrir leik og verður fullt af páskaeggjum í boði fyrir fundvísa sem mæta snemma. Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt verður leikurinn að sjálfsögðu sýndur beint á Youtube svæði Akureyrar Handboltafélags. 

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira