Upphitun: Akureyri-KA

Allir á völlinn!
Allir á völlinn!

Akureyri Handboltafélag fær nágranna sína í KA í heimsókn í 13.umferð Grill 66-deildar karla, þriðjudaginn 13.febrúar og hefst leikurinn klukkan 20:00. Leikurinn fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri sem mun opna fyrir gesti og gangandi klukkan 18:00 þar sem hægt verður að kaupa hamborgara og pizzu gegn vægu gjaldi.

Vart þarf að fjölyrða um mikilvægi leiksins þar sem sjálft toppsætið er undir því ljóst er að liðið sem vinnur leikinn mun tylla sér á topp deildarinnar. Liðin hafa verið í sérflokki í Grill 66-deildinni í vetur og aðeins tapað örfáum stigum, hvort um sig.

KA hefur 20 stig eftir 12 leiki, 10 sigurleikir en töp gegn Haukum U og ÍBV U. Akureyri hefur 21 stig eftir 12 leiki; 10 sigurleiki, jafntefli gegn Val U og 10-0 tap gegn KA í fyrri leik liðanna. Sá leikur endaði með jafntefli í leik þar sem hart var barist í KA-heimilinu þann 11.október síðastliðinn en Akureyri var dæmdur ósigur vegna ólöglegs leikmanns og er það eina tap liðsins á tímabilinu.

Færeyingurinn Áki Egilsnes er markahæsti leikmaður KA í vetur en þessi örvhenta skytta hefur skorað 55 mörk í átta leikjum. Næstmarkahæstur er Andri Snær Stefánsson með 48 mörk í tólf leikjum. Vart þarf að kynna Andra Snæ nánar fyrir stuðningsmönnum Akureyrar enda er hann leikjahæsti leikmaður AHF frá upphafi. Andri Snær lék 222 leiki fyrir Akureyri og var um tíma fyrirliði félagsins en ákvað að ganga í raðir uppeldisfélagsins, KA, síðastliðið sumar.

Eins og gefur að skilja eru ótal fleiri tengingar á milli félaganna. Á meðal leikmanna KA má til að mynda nefna Heimi Örn Árnason og Hrein Þór Hauksson sem báðir léku stórt hlutverk í besta árangri AHF í efstu deild leiktímabilið 2010-2011. Hreinn Þór hefur reyndar ekki komið við sögu í leikjum KA að undanförnu en snýr líklega aftur í liðið á morgun.

Líkt og áður segir er fyrri viðureign félaganna í vetur skráð sem 10-0 sigur KA-manna. Leikurinn endaði hins vegar með jafntefli, 19-19 eftir að Akureyri hafði leitt í leikhléi 10-12. Hafþór Már Vignisson fór mikinn í leiknum og var markahæsti leikmaður vallarins með sex mörk. Næstur kom Patrekur Stefánsson með fimm. Í liði KA voru þeir Jón Heiðar Sigurðsson, Dagur Gautason og Ólafur Jóhann Magnússon markahæstir, með fjögur mörk hver. Smelltu hér til að sjá leikinn í heild sinni.

Það er ljóst að enginn verður svikinn af því að mæta í Höllina á morgun og styðja sitt lið í þessum Akureyrarslag.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira