Upphitun: Akureyri - KA

Akureyri Handboltafélag fær KA í heimsókn í Íþróttahöllina á Akureyri í 12.umferð Olís-deildarinnar næstkomandi laugardag, 8.desember. Leikurinn hefst klukkan 18:00 en Höllin opnar klukkutíma fyrr, klukkan 17:00 og verður hægt að fá hamborgara og pizzur gegn vægu gjaldi fyrir leik. Forsala aðgöngumiða hefst klukkan 14:00 á leikdag í Höllinni. Hvetjum við fólk til að verða sér úti um miða í tíma þar sem ætla má að Höllin verði þétt setin.

Um er að ræða fyrsta leikinn í seinni umferðinni en við mættum einmitt KA í fyrstu umferð Olís-deildarinnar í KA-heimilinu þar sem heimamenn fóru með sigur af hólmi með minnsta mögulega mun, 28-27, eftir hádramatískar lokamínútur. Smelltu hér til að lesa nánar um þann leik.

KA er með 8 stig í 8.sæti deildarinnar eftir 11 umferðir. Þeir hafa unnið þrjá leiki (Akureyri, Haukar og ÍBV), gert tvö jafntefli (ÍR og Selfoss) en tapað sex leikjum (FH, Valur, Afturelding, Stjarnan, Grótta og Fram).

Eins og flestum er líklega kunnugt um eru sterkar tengingar á milli Akureyrar og KA en liðin fóru saman upp úr Grill 66-deildinni á síðustu leiktíð eftir að Akureyri Handboltafélag féll úr deild þeirra bestu vorið 2017. Í kjölfarið slitnaði upp úr samstarfi Þórs og KA um Akureyri Handboltafélag og stofnuðu KA-menn sitt eigið lið á meðan okkar menn halda áfram undir merkjum Akureyrar.

Markahæsti leikmaður KA í vetur er Bosníumaðurinn Tarik Kasumovic sem leikur í vinstri skyttu en hann hefur skorað 66 mörk í 11 leikjum. Skammt á eftir honum er færeyska hægri skyttan Áki Egilsnes sem hefur skorað 63 mörk í 11 leikjum. Þriðji lykilmaðurinn í KA-liðinu í vetur er serbneski markvörðurinn Jovan Kukobat sem er með 32% markvörslu í Olís-deildinni í vetur. Jovan okkur að góðu kunnur enda í þriðja sæti yfir þá markmenn sem hafa varið flest skot í sögu Akureyrar en hann lék með okkur frá 2012-2014 og varði á þeim tíma 666 skot en aðeins hafa þeir Sveinbjörn Pétursson og Tomas Olason varið fleiri skot fyrir AHF.

Þjálfari KA er Stefán Árnason, aðstoðarþjálfari AHF 2008-2009 og honum til aðstoðar er Heimir Örn Árnason sem er einnig enn að spila og er í lykilhlutverki í varnarleik KA. Heimi Örn þarf vart að kynna fyrir stuðningsmönnum AHF enda markaði hann djúp spor í sögu félagsins á árunum 2009-2015.

Við hvetjum alla handboltaáhugamenn á Akureyri og í nærsveitum til að fjölmenna í Höllina á laugardag. Stuðningsmenn Akureyrar hafa verið frábærir og vel hefur verið mætt í Höllina í allan vetur. Um er að ræða síðasta heimaleikinn fyrir jól og næsti heimaleikur á eftir þessum ekki fyrr en 2.febrúar 2019.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira