Upphitun: Akureyri - Selfoss

Allir í Höllina!
Allir í Höllina!

Akureyri Handboltafélag fær Selfoss í heimsókn í 2.umferð Olís-deildar karla, mánudaginn 17.september. Um er að ræða fyrsta heimaleik Akureyrar á tímabilinu og er andstæðingurinn ekki af verri endanum.

Selfoss hefur á að skipa einu besta liði landsins en liðið féll úr leik eftir oddaleik í undanúrslitum Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð. Leikmannahópur Selfyssinga er firnasterkur og hefur meðal annars að geyma leikmann tímabilsins í fyrra, Elvar Örn Jónsson og efnilegasta leikmann tímabilsins, Hauk Þrastarson. Markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar var einnig í röðum Selfyssinga á síðustu leiktíð, Teitur Örn Einarsson, en hann hélt utan til Svíþjóðar í atvinnumennsku í sumar.

Þjálfari Selfyssinga var einnig valinn besti þjálfari Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð en það er fyrrum landsliðskempan Patrekur Jóhannesson. 

Þá er ótalinn einn lykilmaður í uppgangi Selfyssinga sem við Akureyringar þekkjum vel en það er línumaðurinn öflugi Atli Ævar Ingólfsson. Atli Ævar hefur leikið 23 leiki fyrir Akureyri Handboltafélag í efstu deild og 22 að auki fyrir Þór en hann fór upp í gegnum alla yngri flokka Þórs og hefur verið einn besti línumaður Íslands undanfarin ár. Bjóðum við Atla Ævar sérstaklega velkominn í Höllina.

Selfyssingar hófu keppni í Olís-deildinni síðastliðinn miðvikudag og unnu þá öruggan útisigur á ÍR, 24-30. Einar Sverrisson var atkvæðamestur Selfyssinga með níu mörk og Árni Steinn Steinþórsson kom næstur með fimm mörk.

Okkar menn eru staðráðnir í að ná í fyrstu stig sín á tímabilinu á mánudag eftir svekkjandi tap gegn KA í fyrstu umferð.

Leikur Akureyrar og Selfoss hefst klukkan 18:30 og hvetjum við alla Akureyringa til að fjölmenna í Höllina og styðja okkar menn til sigurs. Hægt verður að gæða sér á glóðargrilluðum hamborgurum fyrir leik. Í Höllinni höfum við flotta aðstöðu til að setjast niður og gæða sér á ljúffengum borgurum og óhætt að mæla með því, hvort heldur sem er fyrir einstaklinga eða fjölskyldur.

Áfram Akureyri!

https://www.facebook.com/events/468183683674387/

akselfoss


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira