Upphitun: Akureyri - Valur

Akureyri Handboltafélag fær Val í heimsókn í 8.umferð Olís-deildarinnar næstkomandi sunnudag, 11.nóvember klukkan 16:00 en húsið opnar klukkutíma fyrr þar sem hægt verður að fá hamborgara og drykk gegn vægu gjaldi.

Valur er í 5.sæti deildarinnar með 9 stig eftir sjö leiki þar sem liðið hefur unnið fjóra leiki (ÍBV, ÍR, Stjörnuna og Gróttu), gert eitt jafntefli (Fram) og tapað tveimur (Aftureldingu og Selfossi).

Markahæsti leikmaður Vals í vetur er fyrrum leikmaður okkar, Akureyringurinn Anton Rúnarsson. Anton hefur skorað 37 mörk í sjö leikjum en hann lék níu leiki með okkur leiktímabilið 2008-2009. Næstmarkahæstur Valsara er hægri skyttan Agnar Smári Jónsson sem kom til Vals síðasta sumar eftir að hafa verið í lykilhlutverki hjá ÍBV í fyrra.

Annar af þjálfurum Vals er einnig fyrrum leikmaður Akureyrar, húsvíska varnartröllið Guðlaugur Arnarsson en hann á 91 leik fyrir AHF í efstu deild á árunum 2009-2013. Hann var í lykilhlutverki þegar félagið náði sínum besta árangri í sögunni tímabilið 2010-2011. Við bjóðum Gulla og Anton sérstaklega velkomna í Höllina. Hinn þjálfari Vals er Silfurdrengurinn Snorri Steinn Guðjónsson.

Við hvetjum alla Akureyringa og nærsveitunga til að fjölmenna í Höllina á sunnudag og styðja okkar menn til sigurs. Fyrir þá sem ekki komast verður leikurinn sýndur beint á Akureyri TV.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira