Upphitun: FH - Akureyri

Akureyri Handboltafélag heimsækir Fimleikafélag Hafnarfjarðar í 21.umferð Olís-deildarinnar miðvikudaginn 3.apríl og hefst leikurinn klukkan 19:30.

FH er í 4.sæti deildarinnar með 25 stig eftir tuttugu leiki. Liðið hefur unnið 10 leiki (Fram x2, Gróttu x2, Stjörnuna x2, ÍR x2, ÍBV, KA) gert 5 jafntefli (Val, Aftureldingu x2, Haukar x2) og tapað 5 leikjum (Selfossi x2, Akureyri, Val og ÍBV).

Markahæsti leikmaður FH í vetur er Ásbjörn Friðriksson með 137 mörk í 19 leikjum. Ási hefur leikið 50 leiki fyrir Akureyri Handboltafélag í efstu deild og skoraði hann 131 mark í þeim á árunum 2006-2008 en auk þess að vera lykilmaður FH er hann aðstoðarþjálfari liðsins.

Þjálfari FH er Akureyringurinn Halldór Jóhann Sigfússon sem gerði garðinn frægan með KA á árum áður og honum til aðstoðar er fyrrum landsliðsmarkvörðurinn Roland Valur Eradze.

Akureyri vann fyrri leik liðanna þegar þau mættust í Íþróttahöllinni á Akureyri þann 25.nóvember síðastliðinn. Okkar menn unnu 27-26 eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik, 14-16. Lesa má nánar um þann leik hér.

Við hvetjum alla Akureyringa á höfuðborgarsvæðinu til að mæta í Krikann og styðja okkar menn til sigurs í þessum mikilvæga leik. Því miður verður leikurinn hvergi sýndur en hægt verður að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi og á vef Morgunblaðsins.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira