Upphitun: KA-Akureyri

Það var mjög gaman síðast þegar þessi lið mættust!
Það var mjög gaman síðast þegar þessi lið mættust!

Akureyri Handboltafélag heimsækir KA í 1.umferð Olís-deildar karla í KA-heimilinu á morgun, mánudaginn 10.september. Leikurinn hefst klukkan 19:00. KA-menn bjóða upp á forsölu aðgöngumiða milli klukkan 10:00 og 16:00 á morgun í KA-Heimilinu. Viljum við hvetja stuðningsmenn Akureyrar til að nýta sér forsöluna því í fyrra komust færri að en vildu þegar þessi lið mættust í KA-heimilinu í Grill 66-deildinni.

Þessi grannaslagur markar upphaf á endurkomu beggja liða í efstu deild en liðin fóru saman upp úr Grill 66-deildinni á síðustu leiktíð eftir að Akureyri Handboltafélag féll úr deild þeirra bestu vorið 2017. Í kjölfarið slitnaði upp úr samstarfi Þórs og KA um Akureyri Handboltafélag og stofnuðu KA-menn sitt eigið lið á meðan okkar menn halda áfram undir merkjum Akureyrar.

Það gefur því auga leið að enn eru miklar tengingar á milli liðanna. Til að mynda er fyrirliði KA-manna, Andri Snær Stefánsson, leikjahæsti leikmaður í sögu Akureyrar Handboltafélags. Í leikmannahópi KA má finna fleiri goðsagnir úr sögu AHF og ber þar helsta að nefna gömlu brýnin Heimi Örn Árnason og Hrein Þór Hauksson.

Þegar liðin mættust á sama stað í upphafi síðustu leiktíðar vann KA 10-0 sigur eftir að leikurinn hafði endað með 19-19 jafntefli. Í síðari leik liðanna vann Akureyri fjögurra marka sigur, 24-20, fyrir framan meira en 1100 áhorfendur í Íþróttahöllinni.

KA er spáð erfiðu gengi í vetur af flestum þeim sérfræðingum sem fjalla um deildina en það sama má segja um okkar menn og til að mynda er báðum nýliðunum spáð falli af Seinni Bylgjunni á Stöð 2 Sport.

Við hvetjum stuðningsmenn okkar til að fjölmenna í KA-heimilið á morgun og styðja strákana okkar til sigurs í baráttunni um montréttinn í bænum. Fyrir þá Akureyringa sem ekki eiga heimangengt á leikinn er gott að hafa í huga að leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira