Upphitun: Mílan - Akureyri

Akureyri Handboltafélag heimsækir Míluna á Selfoss í 12.umferð Grill 66-deildar karla, laugardaginn 3.febrúar og hefst leikurinn klukkan 17:00. Leikurinn fer fram í íþróttahúsinu við Vallaskóla og kostar 1000 krónur inn.

Líkt og um síðustu helgi getur Akureyri tyllt sér í toppsætið um stundarsakir með sigri þar sem topplið KA á leik sólarhring síðar, gegn Haukum U að Ásvöllum.

Mílan situr í næstneðsta sæti deildarinnar með þrjú stig eftir ellefu leiki en eini sigurleikur liðsins í vetur til þessa kom gegn Hvíta Riddaranum. Þá gerði Mílan jafntefli við Hauka U í fyrstu umferð deildarinnar síðastliðið haust.

Alls hafa 30 leikmenn komið við sögu með Mílunni í vetur en markahæsti leikmaður liðsins er Hannes Höskuldsson sem hefur skorað 26 mörk í átta leikjum. Næstur á eftir honum er Atli Kristinsson með 24 mörk í sex leikjum en Atli lék um árabil með Selfossi.

Fyrri leik Akureyrar og Mílunnar lauk með þriggja marka sigri Akureyrar, 28-25, eftir að Mílan hafði leitt í leikhléi, 12-13. Leikurinn fór fram í Íþróttahöllinni þann 6.október síðastliðinn og fór áðurnefndur Atli mikinn í leiknum, skoraði alls tíu mörk. Markahæstur hjá Akureyri var Brynjar Hólm Grétarsson með fimm mörk.

Við hvetjum alla Akureyringa á Suðurlandi og nærsveitum að renna inn á Selfoss og styðja strákana okkar til sigurs í þessum mikilvæga leik.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira