Upphitun: Selfoss - Akureyri

Akureyri Handboltafélag heimsækir topplið Selfoss í 13.umferð Olís-deildarinnar næstkomandi sunnudag, 16.desember. Leikurinn hefst klukkan 16:00 í Hleðsluhöllinni á Selfossi og verður sýndur í beinni útsendingu á SelfossTV.

Selfoss hefur á að skipa einu besta liði landsins en liðið féll úr leik eftir oddaleik í undanúrslitum Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð. Leikmannahópur Selfyssinga er firnasterkur og hefur meðal annars að geyma leikmann tímabilsins í fyrra, Elvar Örn Jónsson og efnilegasta leikmann tímabilsins, Hauk Þrastarson. Þeir félagar hafa verið í lykilhlutverki í vetur líkt og í fyrra og eru markahæstu leikmenn félagsins á tímabilinu.

Þjálfari Selfyssinga var einnig valinn besti þjálfari Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð en það er fyrrum landsliðskempan Patrekur Jóhannesson. 

Þá er ótalinn einn lykilmaður í uppgangi Selfyssinga sem við Akureyringar þekkjum vel en það er línumaðurinn öflugi Atli Ævar Ingólfsson. Atli Ævar hefur leikið 23 leiki fyrir Akureyri Handboltafélag í efstu deild og 22 að auki fyrir Þór en hann fór upp í gegnum alla yngri flokka Þórs og hefur verið einn besti línumaður Íslands undanfarin ár.

Selfoss trónir á toppi Olís-deildarinnar með 8 sigra (ÍR x2, Akureyri, ÍBV, Valur, FH, Fram, Grótta ) 2 jafntefli (Afturelding og KA), og 2 töp (Haukar og Stjarnan). Liðið lék síðast í gær þegar þeir unnu Fram með minnsta mun í Coca-Cola bikarnum, 31-32.

Um er að ræða síðasta leik Akureyrar á árinu en svo tekur við landsleikjahlé vegna HM í Þýskalandi og er næsti leikur á eftir þessum ekki fyrr en 2.febrúar þegar Haukar koma í heimsókn í Höllina. Við hvetjum alla Akureyringa á Suðurlandi til að mæta í Hleðsluhöllina og styðja okkar menn til sigurs í síðasta leik ársins.

https://www.facebook.com/events/215138466042416/

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira