Upphitun: Stjarnan-Akureyri

Akureyri Handboltafélag heimsækir Stjörnuna í 9.umferð Olís-deildarinnar laugardaginn 17.nóvember og hefjast leikar klukkan 18:00 í Mýrinni, Garðabæ.

Stjarnan situr í 6.sæti deildarinnar með sex stig eftir þrjá sigurleiki (KA, Grótta, Fram) en tapað fimm leikjum (Haukar, FH, Valur, ÍBV og Aftureldingu). 

Þjálfarateymi Stjörnunnar er skipað þeim Rúnari og Árna Þór Sigtryggssyni en þá bræður þarf ekki að kynna fyrir stuðningsmönnum Akureyrar enda hafa þeir markað djúp spor í sögu félagsins. Rúnar hefur leikið 80 leiki fyrir Akureyri í efstu deild auk þess að hafa þjálfað liðið við góðan orðstír. Árni Þór hefur leikið 48 leiki fyrir AHF í efstu deild en báðir ólust þeir upp í Þorpinu og hafa einnig leikið fjölmarga leiki fyrir Þór áður en þeir héldu í atvinnumennsku. Árni Þór er spilandi aðstoðarþjálfari Rúnars hjá Stjörnunni og hefur komið við sögu í tveimur leikjum í vetur.

Í leikmannahópi Stjörnunnar eru tveir Akureyringar til viðbót en sonur Rúnars, Andri Már, er að þreyta frumraun sína með meistaraflokki og hefur komið þónokkuð við sögu hjá Garðbæinum í Olís-deildinni í vetur. Þá er Sveinbjörn Pétursson í algjöru lykilhlutverki en hann ólst einnig upp hjá okkur og er án nokkurs vafa einn besti markvörður í sögu félagsins en Sveinbjörn á 115 leiki fyrir Akureyri í efstu deild og hefur varið 1552 skot í þeim leikjum sem gerir rúm 13 varin skot að meðaltali í leik. Mögnuð tölfræði.

Friðrik Svavarsson, fyrirliði okkar, mun ekki taka þátt í leiknum á morgun þar sem hann tekur út fyrri leikinn í tveggja leikja banni.

Okkar menn eru staðráðnir í að sækja sigur í Garðabæinn og hvetjum við alla Akureyringa á höfuðborgarsvæðinu til að mæta í Mýrina og hjálpa okkar mönnum í baráttunni. Fyrir þá sem ekki komast verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Áfram Akureyri! 


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira