Upphitun: Akureyri-Stjarnan

Akureyri Handboltafélag fær Stjörnuna í heimsókn í 20.umferð Olís-deildarinnar, sunnudaginn 31.mars og hefst leikurinn klukkan 16:00. Líkt og vanalega opnar Höllin klukkutíma fyrir leik þar sem hægt verður að fá hamborgara og drykk gegn vægu gjaldi.

Stjarnan er í 7.sæti deildarinnar með 17 stig eftir nítján leiki. Garðabæjarliðið hefur unnið 8 leiki (KA, Fram x2, Grótta x, Akureyri, ÍR og Selfoss) gert 1 jafntefli (KA) og tapað 10 leikjum (Afturelding x2, ÍBV x2, Valur x2, FH x2, Haukar x2).

Markahæsti leikmaður Stjörnunnar í vetur er stórskytann Egill Magnússon með 110 mörk í 17 leikjum. Næstur á eftir honum er leikstjórnandinn Aron Dagur Pálsson með 94 mörk í 19 leikjum.

Þjálfarateymi Stjörnunnar er skipað þeim Rúnari og Árna Þór Sigtryggssonum en þá bræður þarf ekki að kynna fyrir stuðningsmönnum Akureyrar enda hafa þeir markað djúp spor í sögu félagsins. Rúnar hefur leikið 80 leiki fyrir Akureyri í efstu deild auk þess að hafa þjálfað liðið við góðan orðstír. Árni Þór hefur leikið 48 leiki fyrir AHF í efstu deild en báðir ólust þeir upp í Þorpinu og hafa einnig leikið fjölmarga leiki fyrir Þór áður en þeir héldu í atvinnumennsku. Árni Þór er spilandi aðstoðarþjálfari Rúnars hjá Stjörnunni.

Í leikmannahópi Stjörnunnar eru þrír Akureyringar til viðbót en sonur Rúnars, Andri Már, er að þreyta frumraun sína með meistaraflokki og hefur komið þónokkuð við sögu hjá Garðbæinum í Olís-deildinni í vetur. Þá er Sveinbjörn Pétursson í algjöru lykilhlutverki en hann ólst einnig upp hjá okkur og er án nokkurs vafa einn besti markvörður í sögu félagsins en Sveinbjörn á 115 leiki fyrir Akureyri í efstu deild og hefur varið 1552 skot í þeim leikjum sem gerir rúm 13 varin skot að meðaltali í leik. Mögnuð tölfræði. Þá er ótalinn Ragnar Snær Njálsson sem nýverið tók handboltaskóna af hillunni og hefur komið sem stormsveipur í varnarleik Stjörnunnar.

Vart þarf að fjölyrða um mikilvægi leiksins fyrir okkar menn en nú er ekki seinna vænna að hefja björgunaraðgerðir til að tryggja veru félagsins í efstu deild. Þetta er næstsíðasti heimaleikur strákanna í vetur en aðeins eru þrjár umferðir eftir af mótinu og þarf Akureyri að lágmarki fjögur stig til viðbótar og að treysta á að önnur lið fái ekki of mörg stig.

Við hvetjum alla til að fjölmenna í Höllina á sunnudag og styðja okkar menn til sigurs. Fyrir þá sem ekki komast í Höllina verður leikurinn sýndur beint á svæði Akureyrar Handboltafélags á Youtube.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira