Upphitun: Þróttur - Akureyri

Fjölmennum í Víkina!
Fjölmennum í Víkina!

Akureyri Handboltafélag heimsækir Þrótt Reykjavík í fimmtándu umferð Grill 66-deildar karla föstudaginn 2.mars. Heimavöllur Þróttar er alla jafnan Laugardalshöllin en þar sem hún er upptekin mun leikurinn fara fram í Víkinni í Fossvogi þar sem Víkingur Reykjavík hefur sína aðstöðu. Flautað verður til leiks í Víkinni klukkan 19:30.

Þróttur situr í fjórða sæti deildarinnar með 18 stig og hefur átt góða spretti í vetur. Komst liðið til að mynda mjög nálægt því að slá Selfoss út úr bikarnum á dögunum í hádramatískum leik. Síðasti leikur Þróttar var sömuleiðis dramatískur en þá gerðu þeir góða ferð í Strandgötuna og unnu Hauka U með minnsta mun, 29-30.

Þjálfari Þróttar er Róbert Sighvatsson sem var línumaður íslenska landsliðsins á árum áður og aðstoðarmaður hans er Sebastian Alexandersson, fyrrum landsliðsmarkvörður og nú sérfræðingur Seinni Bylgjunnar á Stöð 2 Sport.

Styrmir Sigurðarson er markahæstur Þróttara í vetur en hann hefur skorað 55 mörk í fimmtán leikjum. Þá nýttu Þróttarar félagaskiptagluggann í upphafi nýs árs til að sækja sér erlendan liðsstyrk og hefur Milan Zegerac gert 15 mörk í þremur leikjum fyrir Þrótt. Milan þessi er stór og stæðileg hægri skytta sem kemur frá Serbíu.

Þróttarar heimsóttu Íþróttahöllina á Akureyri 3.nóvember síðastliðinn í sjöttu umferð deildarinnar. Lauk leiknum með fimm marka sigri okkar manna, 30-25, eftir að staðan í leikhléi var 14-12. Hafþór Már Vignisson gerði 7 mörk en næstir komu Brynjar Hólm Grétarsson og Igor Kopyshynskyi með sex mörk hvor. Áðurnefndur Styrmir var markahæstur hjá Þrótti með átta mörk.

Við hvetjum alla Akureyringa á Höfuðborgarsvæðinu til að mæta í Víkina og styðja okkar menn til sigurs.

Áfram Akureyri!


Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira