Upphitun: Valur - Akureyri

Akureyri Handboltafélag heimsækir Val í 19.umferð Olís-deildarinnar mánudaginn 25.mars og hefst leikurinn klukkan 18:00 í Origo-höllinni að Hlíðarenda. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Valur er í 3.sæti deildarinnar með 25 stig eftir 18 leiki en Valsarar hafa unnið 11 leiki (ÍBV, ÍR x2, Stjörnuna x2 og Gróttu x2, Akureyri, KA, Hauka, Fram), gert 3 jafntefli (Fram, FH, Afturelding) og tapað 4 leikjum (Aftureldingu, Selfossi x2 og ÍBV).

Markahæsti leikmaður Vals í vetur er Hafnfirðingurinn Magnús Óli Magnússon en hann hefur skorað 95 mörk í 17 leikjum. Næstur á eftir honum er Anton Rúnarsson með 86 mörk í 18 leikjum en Anton er fyrrum leikmaður Akureyrar. 

Fyrri leik okkar manna gegn Val í vetur lauk með 9 marka sigri Vals, 22-31, eftir að staðan í leikhléi var 12-14 en leikið var í Íþróttahöllinni á Akureyri þann 11.nóvember síðastliðinn. Áðurnefndur Anton var atkvæðamestur Vals með sex mörk en Ihor Kopyshynskyi var markahæstur okkar manna með 4 mörk.

Annar af þjálfurum Vals er einnig fyrrum leikmaður Akureyrar, húsvíska varnartröllið Guðlaugur Arnarsson en hann á 91 leik fyrir AHF í efstu deild á árunum 2009-2013. Hann var í lykilhlutverki þegar félagið náði sínum besta árangri í sögunni tímabilið 2010-2011. Gulli þjálfar Val í samstarfi við Silfurdrenginn Snorra Stein Guðjónsson.

Geir Sveinsson snýr á heimaslóðir annað kvöld en hann ólst upp hjá Val og lék lengi með liðinu auk þess sem hann hóf þjálfaraferil sinn að Hlíðarenda í upphafi þessarar aldar.

Við hvetjum Akureyringa á höfuðborgarsvæðinu til að mæta að Hlíðarenda á morgun og styðja okkar menn til sigurs í þessum mikilvæga leik.

Áfram Akureyri!Athugasemdir

Sparaðu um leið og þú styrkir strákana okkar

  • Orkan og Orkulykill

    Orkan og Orkulykill

    Fáðu 10 krónu afslátt á lítrann um leið og þú styrkir Akureyri Handboltafélag með Orkulyklinum!

    Lesa meira